Nútímalegt fyrir öld

30. apríl 2010

Það hefur gott safn af latneskum, grískum og kyrílskum stöfum. Það minnir á fornar skólabækur. Það heitir Old Standard og finnst á Þessalóniku.

Bókletrið Old Standard er til sem upprétt, skáletur og feitt upprétt. Annað bókletur er Times-líkið Tempora LGC (upprétt, skáletur og feitt) og svo Theano, þrjár stafagerðir undir sama hatti, allar uppréttar.

Tempora er bundið GPL, Theano og Old Standard aftur OFL.

Júní…hvað?

29. apríl 2010

Junicode er leturgerð ætluð aðallega til að skrifa upp engilsaxnesk miðaldahandrit en er einnig nothæf til að ljá vissan enskan blæ. Þ-ið er engilsaxneskt, þ.e. með upplyftum belg.

Letrið er bókletur (serif) og er til sem upprétt, skáletur og feitt.

Junicode er bundið leyfinu GPL.

Aftur í Eyjahafið

28. apríl 2010

George Douros heitir grískur leturhöfundur. Sá hefur teiknað ýmist táknletur og grískt ritletur.

Vanti þig Maya-rúnir, þó ekki sé nema til skrauts, fleygrúnir, helgirúnir eða forn tónlistartákn, er þetta rétti staðurinn.

Leyfisskilmálar eru einfaldir: Þú mátt gera næstum hvað sem er við letrið og með því.

Algjör gríska

27. apríl 2010

Þetta sinn er Greek Font Society í geisla vasaljóssins. GFS hefur það hlutverk að rannsaka og þróa gríska prentlist. Leturgerð er einn þáttur þess. Skrifirðu grísku, er líklega erfitt að finna fjölbreyttara letur en þeirra.

Það sem vakti helst athygli mína var 20.-aldar bókletrið Artemisia með sínum grísku sveigjum, steinskriftin Neohellenic og höfuðstafaletrið Ambrosia og Garaldus.
Notkun letursins er bundin skilmálum OFL.

Haukur í horni

26. apríl 2010

Þurfirðu að eiga við texta á öllum mögulegum og ómögulegum tungum, er gott að eiga GNU-letrið í bakhöndinni.

GNU-letrið er Free Serif (Times),  Free Sans (Helvetica) og Free Monospaced (Courier). Það virðist byggt á Nimbus-letri því sem letursmiðjan URW gaf frjálst fyrir allmörgum árum.

Auðvitað er GNU-letrið GPL-bundið.

Svalur þýskur köttur

25. apríl 2010

CAT Fonts er hönnunarstofa fyrir vefsetur og letur í gamla Austur-Þýskalandi.Þar kennir ýmissa grasa, en vanti þig iðnletur, Tengwar eða þýskt brotaletur með öllum límstöfunum, er slíkt hér að finna.

Ýmsa leyfisskilmála er að finna: Creative Commons, GPL og OFL. Gjafafé er velþegið.

Energí og trú. Og letur.

24. apríl 2010

Association for Insight Meditation er búddísk stofnun á Englandi sem sinnir nokkurri leturgerð að auki. Hér mun líklega helst vekja athygli Kabel-líkið Kabala, Palatino-inn Pali, enska svartskriftarletrið Cankama og Mandala sem er Bauhaus-ættað.

Letrið Akkhara or bundið OFL og Verajja er bundið Vera-leyfinu. Allt annað letur er bundið GPL.

Eigi veit ek það svo gjörla, en hitt veit ek at biflíustofnun ein gjörir gott letur.

Summer Institute of Learning (SIL International) sinnir leturgerð vegna biblíustarfsemi sinnar á fjarlægum svæðum. Þeirra frægasta letur er líklega Gentium (letur þjóðanna).

Gentium er bókletur með latneskum, grískum og kyrílskum stöfum og er til sem upprétt og skáletur í tveim afbrigðum með misháum broddum.

Að auki er til Gentium Basic sem hefur eingöngu latneska stafi en býður aukreitis upp á feitt letur. Það er til í tveim misþungum útgáfum.

Mjög líklega. Letrið DejaVu er byggt á Bitstream Vera sem Bitstream gaf frjálst um 2003. DejaVu hentar vel sem vefletur og spannar hér um bil allt rófið af latneskum, grískum og kyrílskum stöfum ásamt fjölda tákna og mynda (dingbats).

Í pakkanum er bókskrift, steinskrift og jafnbila letur, upprétt, ská og feitt. Bók- og steinskriftin er og þrengd (condensed).

Letrinu er dreift með sama leyfi og Bitstream Vera.

Hann var góður, þessi!

21. apríl 2010

http://www.thedailyshow.com/watch/mon-april-19-2010/volcanolypse-2010

Að bera fram nafnið Eyjafjallajökull er ekki öllum hent. Það er sko víst. Og svo kynnir þulurinn til sögu Hina Réttu Grafík fyrir umfjöllun um gosið. Ekki við hæfi kviðveikra og nýuppskorinna.