Ný útgáfa af FreeSerif, FreeSans og FreeMono
1. október 2010
GNU-letrið svokallaða kom út í nýrri útgáfu 19. september með ýmsum breytingum og viðaukum.
Letrið er byggt á URW Nimbus Serif#9/Sans/Mono og líkist helst Times Roman, Helvetica og Courier.
Íslenskur spegill: rhnet.is. Skrárnar eru dagsettar 20100919. Líklega munu flestir sækjast eftir freefont-otf-20100919.zip.
Antykwa Półtawskiego
2. júlí 2010
Nú hefur þetta letur (Antykwa Półtawskiego) heldur betur fengið andlitslyftingu. Það er nú í fjórum þykktum (Light, Book, Medium og Bold) og fimm breiddum (Condensed, Semi-condensed, normal, Semi-expanded og Expanded), allt saman upprétt og skáletur (italic). Samanlagt eru það fjörutíu leturskrár.
Að auki hafa Iwona og Kurier fengið smáendurbætur.
Letrið fæst sem TeX-letur, TrueType og PostScript OpenType skv. GUST-leyfinu.
Opið allan sólarhringinn
5. maí 2010
Nefni ég letur á næstunni, verða það líklega einstakar leturgerðir. Ég ætla því að skjóta út árið með því að nefna Open Font Library - letursafn þar sem allt letrið er öllum opið. Þetta er helsti staðurinn til að finna Rursus Compact Mono.
Flest jafnbilaletur nú er byggt á steinskrift. Courier og Pica eru helstu undantekningarnar. Rursus Compact Mono minnir ögn á blöndu af þessu tvennu. Það er hálf stórkarlalegt að sjá, enda var það samið til notkunar á skjá.
Borgarnafn, eða hvað?
4. maí 2010
Meira japanskt letur: Togoshi Fonts. Fátt um það að segja, nema Mona Gothic er sniðið að gerð mynda úr bókstöfum.
Fernt letur er í boði: Togoshi Gothic, Mono, Mona Gothic og Mincho. Það er, í þessarri röð, steinskrift, jafnbila steinskrift, steinskrift og bókskrift. Allt letrið er upprétt og í einni þykkt.
Letrið fellur allt undir Wadalab-leyfið.
M+: Ekki bensínstöð, ekki get-rich-quick.
3. maí 2010
Aftur til Japans, nú til að sjá M+ Fonts.
Letrið er bæði steinskrift í sjö þykktum og jafnbila steinskrift í fimm þykktum. Ekkert skáletur er í boði.
Þetta letur má nota skv. Wadalab-líku leyfi.
Með Fuji baksviðs
2. maí 2010
Gutenberg Labo er staðsett í Japan. Vanti þig Lykla Salómons, númeraplötuletur á nýja módel-Porsche-inn eða hiragana/katakana-letur, líttu þá við hér.
GL-Nummernschild er byggt á þýska númeraplötuletrinu. GL-Tsukiji-línan hefur eingöngu japanska stafi. GL-DancingMen er fyrir lesendur Sherlock Holmes.
Wadalab-líkt leyfi gildir á öllu letri. Þú mátt nota það til hvers sem er og útbýta því hvernig sem er, óbreytt eður ei.
Annar póll í hæðina
1. maí 2010
Áfangastaður: Pólland, hvar maður, Janusz Marian Nowacki að nafni, á sér heimili. Prentari og setjari að atvinnu, letursmiður af áhuga. Hann hefur endurvakið ýmist pólskt letur.
Antykwa Toruńska og Antykwa Półtawskiego eru hvort tveggja bókletur (serif). Hið fyrra er upprétt og skáletur í fjórum þykktum og þrengdu (condensed), hið seinna í tveim. Enn er hið þriðja, Cyklop, mjög feitt fyrirsagnaletur.
Hættirðu þér á pólsku síðuna, muntu finna tvær leturgerðir til: Kurier og Iwona. Báðar flokkast sem steinskrift (sans-serif). Þær eru til sem upprétt og skáletur í fimm þykktum og þrengdu.
Letrið er falt skv. leyfisskilmálum GUST (félags TeX-notenda í Póllandi), sem notar LaTeX-leyfið sem fyrirmynd. Það ætti að vera flestu letri hentugra til að setja texta á pólsku.
Nútímalegt fyrir öld
30. apríl 2010
Það hefur gott safn af latneskum, grískum og kyrílskum stöfum. Það minnir á fornar skólabækur. Það heitir Old Standard og finnst á Þessalóniku.
Bókletrið Old Standard er til sem upprétt, skáletur og feitt upprétt. Annað bókletur er Times-líkið Tempora LGC (upprétt, skáletur og feitt) og svo Theano, þrjár stafagerðir undir sama hatti, allar uppréttar.
Tempora er bundið GPL, Theano og Old Standard aftur OFL.
Júní…hvað?
29. apríl 2010
Junicode er leturgerð ætluð aðallega til að skrifa upp engilsaxnesk miðaldahandrit en er einnig nothæf til að ljá vissan enskan blæ. Þ-ið er engilsaxneskt, þ.e. með upplyftum belg.
Letrið er bókletur (serif) og er til sem upprétt, skáletur og feitt.
Junicode er bundið leyfinu GPL.
Aftur í Eyjahafið
28. apríl 2010
George Douros heitir grískur leturhöfundur. Sá hefur teiknað ýmist táknletur og grískt ritletur.
Vanti þig Maya-rúnir, þó ekki sé nema til skrauts, fleygrúnir, helgirúnir eða forn tónlistartákn, er þetta rétti staðurinn.
Leyfisskilmálar eru einfaldir: Þú mátt gera næstum hvað sem er við letrið og með því.