Aftur til Japans, nú til að sjá M+ Fonts.

Letrið er bæði steinskrift í sjö þykktum og jafnbila steinskrift í fimm þykktum. Ekkert skáletur er í boði.

Þetta letur má nota skv. Wadalab-líku leyfi.

Með Fuji baksviðs

2. maí 2010

Gutenberg Labo er staðsett í Japan. Vanti þig Lykla Salómons, númeraplötuletur á nýja módel-Porsche-inn eða hiragana/katakana-letur, líttu þá við hér.

GL-Nummernschild er byggt á þýska númeraplötuletrinu. GL-Tsukiji-línan hefur eingöngu japanska stafi. GL-DancingMen er fyrir lesendur Sherlock Holmes.

Wadalab-líkt leyfi gildir á öllu letri. Þú mátt nota það til hvers sem er og útbýta því hvernig sem er, óbreytt eður ei.

Áfangastaður: Pólland, hvar maður, Janusz Marian Nowacki að nafni, á sér heimili. Prentari og setjari að atvinnu, letursmiður af áhuga. Hann hefur endurvakið ýmist pólskt letur.

Antykwa Toruńska og Antykwa Półtawskiego eru hvort tveggja bókletur (serif). Hið fyrra er upprétt og skáletur í fjórum þykktum og þrengdu (condensed), hið seinna í tveim. Enn er hið þriðja, Cyklop, mjög feitt fyrirsagnaletur.

Hættirðu þér á pólsku síðuna, muntu finna tvær leturgerðir til: Kurier og Iwona. Báðar flokkast sem steinskrift (sans-serif). Þær eru til sem upprétt og skáletur í fimm þykktum og þrengdu.

Letrið er falt skv. leyfisskilmálum GUST (félags TeX-notenda í Póllandi), sem notar LaTeX-leyfið sem fyrirmynd. Það ætti að vera flestu letri hentugra til að setja texta á pólsku.

Nútímalegt fyrir öld

30. apríl 2010

Það hefur gott safn af latneskum, grískum og kyrílskum stöfum. Það minnir á fornar skólabækur. Það heitir Old Standard og finnst á Þessalóniku.

Bókletrið Old Standard er til sem upprétt, skáletur og feitt upprétt. Annað bókletur er Times-líkið Tempora LGC (upprétt, skáletur og feitt) og svo Theano, þrjár stafagerðir undir sama hatti, allar uppréttar.

Tempora er bundið GPL, Theano og Old Standard aftur OFL.

Júní…hvað?

29. apríl 2010

Junicode er leturgerð ætluð aðallega til að skrifa upp engilsaxnesk miðaldahandrit en er einnig nothæf til að ljá vissan enskan blæ. Þ-ið er engilsaxneskt, þ.e. með upplyftum belg.

Letrið er bókletur (serif) og er til sem upprétt, skáletur og feitt.

Junicode er bundið leyfinu GPL.

Aftur í Eyjahafið

28. apríl 2010

George Douros heitir grískur leturhöfundur. Sá hefur teiknað ýmist táknletur og grískt ritletur.

Vanti þig Maya-rúnir, þó ekki sé nema til skrauts, fleygrúnir, helgirúnir eða forn tónlistartákn, er þetta rétti staðurinn.

Leyfisskilmálar eru einfaldir: Þú mátt gera næstum hvað sem er við letrið og með því.

Algjör gríska

27. apríl 2010

Þetta sinn er Greek Font Society í geisla vasaljóssins. GFS hefur það hlutverk að rannsaka og þróa gríska prentlist. Leturgerð er einn þáttur þess. Skrifirðu grísku, er líklega erfitt að finna fjölbreyttara letur en þeirra.

Það sem vakti helst athygli mína var 20.-aldar bókletrið Artemisia með sínum grísku sveigjum, steinskriftin Neohellenic og höfuðstafaletrið Ambrosia og Garaldus.
Notkun letursins er bundin skilmálum OFL.

Haukur í horni

26. apríl 2010

Þurfirðu að eiga við texta á öllum mögulegum og ómögulegum tungum, er gott að eiga GNU-letrið í bakhöndinni.

GNU-letrið er Free Serif (Times),  Free Sans (Helvetica) og Free Monospaced (Courier). Það virðist byggt á Nimbus-letri því sem letursmiðjan URW gaf frjálst fyrir allmörgum árum.

Auðvitað er GNU-letrið GPL-bundið.

Svalur þýskur köttur

25. apríl 2010

CAT Fonts er hönnunarstofa fyrir vefsetur og letur í gamla Austur-Þýskalandi.Þar kennir ýmissa grasa, en vanti þig iðnletur, Tengwar eða þýskt brotaletur með öllum límstöfunum, er slíkt hér að finna.

Ýmsa leyfisskilmála er að finna: Creative Commons, GPL og OFL. Gjafafé er velþegið.

Energí og trú. Og letur.

24. apríl 2010

Association for Insight Meditation er búddísk stofnun á Englandi sem sinnir nokkurri leturgerð að auki. Hér mun líklega helst vekja athygli Kabel-líkið Kabala, Palatino-inn Pali, enska svartskriftarletrið Cankama og Mandala sem er Bauhaus-ættað.

Letrið Akkhara or bundið OFL og Verajja er bundið Vera-leyfinu. Allt annað letur er bundið GPL.