Haukur í horni

26. apríl 2010

Þurfirðu að eiga við texta á öllum mögulegum og ómögulegum tungum, er gott að eiga GNU-letrið í bakhöndinni.

GNU-letrið er Free Serif (Times),  Free Sans (Helvetica) og Free Monospaced (Courier). Það virðist byggt á Nimbus-letri því sem letursmiðjan URW gaf frjálst fyrir allmörgum árum.

Auðvitað er GNU-letrið GPL-bundið.

Svalur þýskur köttur

25. apríl 2010

CAT Fonts er hönnunarstofa fyrir vefsetur og letur í gamla Austur-Þýskalandi.Þar kennir ýmissa grasa, en vanti þig iðnletur, Tengwar eða þýskt brotaletur með öllum límstöfunum, er slíkt hér að finna.

Ýmsa leyfisskilmála er að finna: Creative Commons, GPL og OFL. Gjafafé er velþegið.

Energí og trú. Og letur.

24. apríl 2010

Association for Insight Meditation er búddísk stofnun á Englandi sem sinnir nokkurri leturgerð að auki. Hér mun líklega helst vekja athygli Kabel-líkið Kabala, Palatino-inn Pali, enska svartskriftarletrið Cankama og Mandala sem er Bauhaus-ættað.

Letrið Akkhara or bundið OFL og Verajja er bundið Vera-leyfinu. Allt annað letur er bundið GPL.

Eigi veit ek það svo gjörla, en hitt veit ek at biflíustofnun ein gjörir gott letur.

Summer Institute of Learning (SIL International) sinnir leturgerð vegna biblíustarfsemi sinnar á fjarlægum svæðum. Þeirra frægasta letur er líklega Gentium (letur þjóðanna).

Gentium er bókletur með latneskum, grískum og kyrílskum stöfum og er til sem upprétt og skáletur í tveim afbrigðum með misháum broddum.

Að auki er til Gentium Basic sem hefur eingöngu latneska stafi en býður aukreitis upp á feitt letur. Það er til í tveim misþungum útgáfum.

Mjög líklega. Letrið DejaVu er byggt á Bitstream Vera sem Bitstream gaf frjálst um 2003. DejaVu hentar vel sem vefletur og spannar hér um bil allt rófið af latneskum, grískum og kyrílskum stöfum ásamt fjölda tákna og mynda (dingbats).

Í pakkanum er bókskrift, steinskrift og jafnbila letur, upprétt, ská og feitt. Bók- og steinskriftin er og þrengd (condensed).

Letrinu er dreift með sama leyfi og Bitstream Vera.

Hann var góður, þessi!

21. apríl 2010

http://www.thedailyshow.com/watch/mon-april-19-2010/volcanolypse-2010

Að bera fram nafnið Eyjafjallajökull er ekki öllum hent. Það er sko víst. Og svo kynnir þulurinn til sögu Hina Réttu Grafík fyrir umfjöllun um gosið. Ekki við hæfi kviðveikra og nýuppskorinna.

65.536 stafir?

21. apríl 2010

Sem betur fer skaust Sigurði Ármannssyni allsvakalega árið 2006 þegar hann sagði TrueType-leturskrár bera aðeins 256 stafi. Þær bera reyndar allt að 65.536 stöfum, svo það er nóg pláss fyrir íslensku, dönsku, þýsku, rússnesku, grísku, samísku, írsku og grænlensku í sömu leturskránni.

Linux Libertine/Biolinum

21. apríl 2010

Linux Libertine er bókletur sem ætlað er að keppa við Times New Roman. Það er sem sé ekki ráðist á lægsta hluta garðsins. Letrinu er dreift undir tvennum leyfum: GPL með leturviðauka og OFL (Open Font License).
Í pakkanum er upprétt og skáletur, hvorttveggja og feitt. Að auki eru smækkaðir hástafir (SmallCaps). Það er í sömu hlutföllum og Times New Roman en minnir meira á blöndu af Garamond og Goudy. Ekki leiðum að líkjast.
Að auki er þarna nýtt steinskriftarletur (sans-serif): Linux Biolinum. Enn sem komið er, er það aðeins til sem upprétt og feitt. Það minnir ögn á Optima í framhjáhlaupi.

Sjá http://scienceblogs.com/eruptions/, en það eru reyndar fleiri eldfjöll óróleg eða virk en hann Eyji okkar.

Ókeypis letur? Í alvöru?

20. apríl 2010

Times New Roman. ZZZ… Arial. Boooring… Comic Sans. Ekkert gaman. Cambria. Euuhhh…

Arkandis Digital Foundry. *blink* *blink* Úr hvaða sauðarlegg kom nú þetta?

ADF er frönsk letursmiðja sem dreifir letri sínu ókeypis. Megnið af því er leyfisbundið GPL (General Public License) með leturviðauka (font exception) sem leyfir þér að nota og vinna með letrið og gefa öðrum af næstum að vild þinni. Hér undir nefni ég þrennt:

Baskervald ADF er í ætt við frægt bókletur, Baskerville. Það er til sem rétt og skáletur í þrem þykktum.

Gillius ADF er mjög í stíl við enska letrið Gill Sans sem Orkuveita Reykjavíkur hefur valið sem fyrirtækisletur.
Universalis ADF líkist töluvert letrinu Futura (sjá gamla Ikea-lista) í svip. Það er til í öllum átta samsetningunum af skáletri, feitu og þrengdu.

Allt gjafaletur ADF má nota sem vefletur. Við sjáum svo til hvað ég nefni næst og hvenær.